Fara í efni

Kaupa núna borga seinna

Skjótfengin lán til kaupa á vöru eða þjónustu

Skyndilán

Fyrirtæki sem bjóða upp á skyndilán til kaupa á vöru og þjónustu, eða það sem kalla mætti „kaupa núna borga seinna“ þjónustu, gera þér kleift að fresta greiðslum t.d. í 14 daga eða lengur og fer kostnaðurinn eftir því hversu lengi þú óskar eftir að fresta greiðslum og hvernig þú endurgreiðir lánið.  

Sum fyrirtæki bjóða upp á þessa þjónustu viðskiptavininum að kostnaðarlausu t.d. ef upphæðin er undir ákveðnu hámarki, þá getur það einnig farið eftir fjárhæðinni sem keypt er fyrir hver kostnaðurinn við greiðslufrestunina er. 

Mikilvægt er að kynna sér hvað þjónustan kostar,og hvað það mun kosta þig ef þú einhverra hluta vegna hefur ekki tök á að standa í skilum þegar kemur að greiðsludegi.

Að nýta sér „kaupa núna borga seinna“ þjónustu getur verið auðveld og þægileg leið til að greiða fyrir vörur og þjónustu, það er þó mikilvægt að gæta þess að skuldbinda sig ekki um efni fram.

Af hverju áttu pening eftir 14 daga ef hann er ekki til núna ? 

Hvernig virkar þessi greiðslumöguleiki?

Þessi þjónusta virkar þannig að þegar þú kaupir eitthvað þá býðst þér þessi greiðslumöguleiki þegar kemur að því að borga.Þjónusta sem þessi getur staðið einstaklingum til boða þegar borgað er á kassa í verslunum og einnig þegar greitt er á netinu. Í flestum tilfellum þarft þú að vera búin að skrá þig hjá þjónustuaðila á vefsíðu. Þú þarft að vera búin að setja upp app/smáforrit í símanum þínum ef þú ætlar að borga á kassa í verslun. 

Er skynsamlegt að nýta sér þessa þjónustu?

  • Mikilvægt er að kynna sér vel þá skilmála sem þjónustuaðili setur. 
  • Oft er þetta auglýst sem þjónusta sem sé viðskiptavinum að kostnaðarlausu eða vaxtalaus. Kostnaðurinn getur þó hlaðist upp ef þú hefur ekki tök á að greiða á umsömdum tíma.
  • Auglýsingar um þessa þjónustu leggja oftast áherslu á hversu einfalt er að nýta sér þjónustuna.

Góð ráð

  • Kynntu þér vel þá skilmála sem þjónustuaðilinn setur.
  • Kannaðu hver kostnaðurinn er ef þú getur ekki staðið í skilum Kannaðu hvort þú þarft að greiða greiðslugjald, gjaldið getur verið misjafnt eftir því hversu háa upphæð verslað er fyrir.
  • Athugaðu að auglýstir vextir geta verið aðrir en þeir sem þér standa til boða. Þjónustuaðilar bjóða ólík vaxtakjör eftir lánshæfismati einstaklinga. Þú getur skoðað þitt lánshæfismat á mínu svæði hjá Creditinfo

Hvernig er greiðslugeta mín metin ?

  • Þjónustuaðilar gera ekki greiðslumat og hafa ekki aðgang að upplýsingum um tekjur þínar eða aðrar skuldir sem þú ert ekki í vanskilum með
  • Lánshæfismat er ekki það sama og greiðslumat.
  • Þjónustuaðilar kanna hvort þú ert á vanskilaskrá – fletta upp á Creditinfo.
  •  Uppflettingar á Creditinfo hafa áhrif á lánshæfismat þitt.

Ef þú ákveður að nýta þér „kaupa núna borga seinna“ þjónustu

  • Gerðu áætlun: Vertu viss um að þú getir borgað heildarupphæðina og að þú ráðir við mánaðarlegar afborganir sem viðbót við aðrar skuldbindingar.

Gættu þess að tapa ekki yfirsýn: Hafðu það að markmiði að vera ekki með marga samninga um afborganir á sama tíma.

  • Fáðu aðstoð: Ef þú sérð að þú ræður ekki við afborganir leitaði þá strax eftir aðstoð.

Hvert getur þú leitað ef þú lendir í vandræðum ?

  • Hafðu samband við þjónustuaðilann/lánveitandann og kannaðu hvaða úrræði hann býður upp á.
  • Hjá umboðsmanni skuldara getur þú fengið endurgjaldslausa og hlutlausa aðstoð við að ná yfirsýn og góð ráð og aðstoð við að semja við kröfuhafa.