Fara í efni

Að semja við kröfuhafa

Ef núverandi greiðslubyrði er of þung eða þú sérð fram á að endar muni ekki ná saman þá borgar sig að reyna að semja við kröfuhafa sem fyrst því vanskil geta verið kostnaðarsöm.

Undirbúningur

Áður en farið er á fund kröfuhafa til að semja um lægri greiðslubyrði eða um frestun á greiðslum er lykilatriði að undirbúa sig vel. 

Ef þú átt í erfiðleikum með að endurgreiða skuld er fyrsta skrefið að finna út hve mikið þú getur greitt. Finna má leiðbeiningar um hvernig má áætla greiðslugetu undir flipanum Að forðast greiðsluvanda .

Skrifaðu niður þau atriði sem þú vilt ræða við kröfuhafann, hvort sem það eru vaxtakjör, fjöldi afborgana, upphæðir eða tímasetningar. 

Við undirbúning þarf að setja sér raunhæf markmið, eins og hversu mikið hægt er að greiða í samkomulagi við kröfuhafa. Ef samningur við kröfuhafa byggir á óraunhæfum væntingum um greiðslugetu er líklegt að ekki verði staðið við samninginn og er hann þá til lítils. 

Leitaðu þér upplýsinga á heimasíðu kröfuhafa um möguleg úrræði vegna greiðsluerfiðleika. Athugaðu að oft er hægt að semja um aðrar lausnir en þar koma fram.

Samið um kröfur

Þú getur haft samband við kröfuhafann með því að hringja, senda tölvupóst eða mæta á staðinn. Láttu vita að þú getir ekki staðið í fullum skilum og að þú viljir kanna möguleika þína á að endursemja eða gera nýja greiðsluáætlun. Vertu viðbúin/-n því að veita kröfuhafanum upplýsingar um fjárhagsstöðu þína til að sýna fram á hvað þú ræður við að greiða.

Ef greiðslugeta er til staðar skaltu kanna möguleika þína á að fá að endurgreiða skuldina á lengri tíma og lækka þannig mánaðarlegar afborganir.

Ef um tímabundinn vanda er að ræða gæti samningstillagan verið sú að greiða tímabundið lægri afborganir af skuldinni, t.d. að greiða aðeins vexti en fá að fresta afborgunum. Eftir tiltekinn tíma hæfust fullar greiðslur á ný. Annaðhvort væri hægt að halda upphaflegum lánstíma og dreifa greiðslunum sem var frestað á eftirstöðvar lánstímans eða að semja um að lengja lánstímann sem nemur frestuðum greiðslum.

Ef svigrúm er til staðar getur borgað sig að kanna möguleika á að semja um niðurfellingu á áföllnum innheimtu- og/eða vaxtakostnaði skuldar gegn því að bjóða eingreiðslu.

Gerðu grein fyrir aðstæðum þínum, hve mikið þú getur greitt. Ekki samþykkja samning sem þú getur ekki staðið við.

Náist samningur við kröfuhafa skalt þú óska eftir að fá skriflega staðfestingu á samningnum. Haltu vel utan um gögn og greiðslukvittanir. Hafðu til dæmis sérstaka möppu í pósthólfinu þínu fyrir gögn tengd fjármálum eða prentaðu þau út og geymdu í möppu.

Reyndu eins og þú mögulega getur að standa við þá samninga sem þú gerir. Ef ómögulegt er fyrir þig að standa í skilum borgar sig að hafa strax samband við kröfuhafann, gera grein fyrir vandanum og reyna að finna lausn.

Ef þú getur með engu móti greitt af skuld sem þú hefur stofnað til og ef samningar við kröfuhafa skila ekki árangri getur þú leitað þér frekari aðstoðar, t.d. hjá umboðsmanni skuldara.

Samið um kröfur sem falla utan greiðsluaðlögunar

Þær kröfur sem falla utan greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður getur ekki samið um í samningi um greiðsluaðlögun er nauðsynlegt að semja um við viðkomandi kröfuhafa. Þeir aðilar sem oftast er um að ræða eru Innheimtustofnun sveitarfélaga vegna meðlagsskulda, Lánasjóður íslenskra námsmanna vegna námslána, Tollstjóri vegna vangreiddra opinberra gjalda og sýslumenn vegna vangreiddra sekta. 

Innheimta meðlags

Til að semja um greiðslur af skuld vegna meðlags er nauðsynlegt að senda rafræna umsókn um það til Sýslumannsins á Norðurlandi vestra . Með umsókninni þarf að fylgja síðasta skattframtal og þrír nýjustu launaseðlar. Þá er heimilt að styðja umsóknina frekari gögnum eins og t.d. læknisvottorði. Nánari upplýsingar um meðlagsgreiðendur er að finna hér

Skatturinn

Hægt er að semja við skattinn um gjaldfallna skatta með því að gera greiðsluáætlun um endurgreiðslu kröfunnar. Þeir sem fara í greiðsluaðlögun þurfa að semja við skattinn um þær kröfur sem falla utan greiðsluaðlögunar. Þá er einnig nauðsynlegt að gera samkomulag um endurgreiðslu á kröfum vegna sekta hjá þeim sýslumannsembættum sem annast innheimtu þeirra.

Menntasjóður

Þeir sem eru í verulegum fjárhagsörðugleikum geta sótt um undanþágu frá afborgun námsláns, sjá frekari upplýsingar á vefsíðu Menntasjóðs. 

Í samningi um greiðsluaðlögun er heimilt að kveða á um að afborganir og vextir af námslánum falli niður á tímabili greiðsluaðlögunar.