Fara í efni

Að forðast greiðsluvanda

Óvænt lækkun á tekjum, veikindi, atvinnumissir og ábyrgðarskuldbindingar sem verða virkar eru meðal þess sem getur orsakað greiðsluerfiðleika. Markmið allra heimila ætti því að vera að skila tekjuafgangi og leggja fyrir í varasjóð svo hægt sé að mæta óvæntum aðstæðum ef þær koma upp. Besta leiðin er alltaf sú að fyrirbyggja vandann áður en í óefni er komið.

Til að forðast greiðsluerfiðleika, eða til að endurreisa fjármálin eftir greiðsluerfiðleika, er gott að hafa eftirfarandi ráð í huga:  

Fáðu raunverulega yfirsýn yfir útgjöld og tekjur 

Hvað kostar í raun og veru að reka heimilið? Hve mikið er greitt af lánum, í húsaleigu, í dagvistun og aðra fasta liði? Hverjar eru útborgaðar tekjur? Að þekkja útgjöldin veitir fjárhagslegt öryggi.

Ein leið til að fá yfirsýn yfir útgjöldin er að skrá þau niður daglega, t.d. í útgjaldadagbókina Kladdann. Einnig getur verið gott að fá yfirsýn yfir raunútgjöld vegna framfærslu heimilisins með því að færa heimilisbókhald. Þá er einnig hægt að hafa framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara til hliðsjónar við mat á framfærslukostnaði. 

Með því að skrá útgjöldin er auðveldara að gera sér grein fyrir í hvað peningarnir fara og þá í framhaldinu að ákveða hvaða útgjöld við viljum hafa sem hluta af föstum útgjöldum og hvað við viljum eða getum sleppt. Það getur verið gott að flokka útgjaldaliðina eftir því hve auðvelt er að vera án þeirra eða lækka þá. Það getur t.d. verið erfitt að lækka liði eins og húsaleigu, fasteignagjöld eða dagvistunarkostnað á meðan auðveldara er að lækka orkureikninga, áskriftarkostnað eða útgjöld vegna matarinnkaupa eða fatakaupa. 

Margir of- eða vanáætla tekjur sínar en best er að taka saman tekjur síðastliðinna 12 mánaða og finna meðaltal útborgaðra launa. Ekki má gleyma  að bæta við meðlagsgreiðslum, barna- og vaxtabótum- og húsnæðisstuðningi, eftir því sem við á.

Greiðslugetan er fundin út með því að draga heildarútgjöld frá heildartekjum, mismunurinn segir til um hve há fjárhæð er til ráðstöfunar í hverjum mánuði.

Settu þér markmið og fylgdu þeim eftir

Þegar mánaðarleg greiðslugeta hefur verið áætluð þá er hægt að setja sér markmið. Markmiðin geta t.d. snúið að því að eyða ekki umfram tiltekna fjárhæð í ákveðna útgjaldaliði eða að koma sér upp reglulegum sparnaði í ákveðnum tilgangi. Með markmiðssetningu er hægt að eiga fyrir þeim útgjöldum sem maður vill ekki sleppa á meðan sparað er á öðrum sviðum. Þegar markmiðið hefur verið sett þarf svo að ákveða hvenær staðan verði tekin aftur til að meta árangurinn. 

Ef aukið svigrúm skapast má nýta það til að greiða inn á lán, greiða niður skammtímaskuldir eða leggja inn á sparnaðarreikning. Með því að ráðstafa umfram fjármunum með þessum hætti erum við betur búin undir óvæntar aðstæður.

Hvað ef ég get ekki staðið í skilum?

Ef ekki er fjárhagslegt svigrúm til að standa í skilum með allar skuldir þá getur verið nauðsynlegt að forgangsraða. Í forgangi ættu að vera útgjöld tengd heimilinu, þ.e. afborganir veðlána, greiðslur fasteignagjalda, orkureikningar og/eða húsaleiga. Aðrar kröfur mætti forgangaraða t.d. með þeim hætti að greiða fyrst minnstu kröfurnar eða með því að greiða inn á þær kröfur sem bera hæsta vexti og kostnað.

Dráttarvextir vegna vanskila voru 8,50% í janúar 2020 og því getur verið skynsamlegt að greiða fyrst niður vanskil. Vextir af rað- og fjölgreiðslum eru þó oft svipaðir vanskilavöxtum. Vextir af yfirdráttarlánum eru að jafnaði aðeins lægri en vanskilavextir. Vextir og kostnaður vegna skyndilána getur verið mismunandi en hér má finna umfjöllun um skyndilán.

Semdu strax við kröfuhafa ef greiðslubyrði er of há miðað við tekjur

Útgjöld þurfa að vera lægri en greiðslugeta svo hægt sé að standa í skilum. Þegar stefnir í vanskil þarf að bregðast strax við því þegar vanskil byrja að hlaðast upp getur verið erfitt að snúa við og vanskil eru kostnaðarsöm.

Mikilvægt er að leita strax til viðkomandi kröfuhafa og kynna sér hvaða úrræði eru í boði vegna tímabundins greiðsluvanda. T.d. að kanna möguleika á að semja um frestun greiðslna af lánum, um að fá að greiða einungis vaxtagreiðslur eða um skilmálabreytingar. Að uppfylltum ákveðnum skilyrðum er hægt að sækja um frestun á afborgunum vegna greiðsluerfiðleika, t.d. hjá  Lánasjóði íslenskra námsmanna og hjá Íbúðalánasjóði.

Þegar greiðsluvandi er viðvarandi, eða ef fyrirséð er að það stefnir í vanskil, er hægt að fá ráðgjöf hjá umboðsmanni skuldara og getur það leitt til tillagna um úrlausnir. Að undangengnu greiðsluerfiðleikamati má jafnframt fá aðstoð við að semja við kröfuhafa.

Kynntu þér rétt þinn og skyldur

Ertu að fara á mis við eitthvað sem þú átt rétt á?

Hægt er að nálgast allar upplýsingar um vaxta- og barnabætur hjá ríkisskattstjóra.

Upplýsingar um húsnæðisbætur má finna hjá Húsbót þar sem jafnframt má nálgast reiknivél húsnæðisbóta.

Upplýsingar um sérstakan húsnæðisstuðning má fá hjá viðkomandi sveitarfélagi.

Upplýsingar um meðlagsgreiðslur má fá hjá sýslumannsembættum en upplýsingar fyrir meðlagsgreiðendur má fá hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga.

Upplýsingar um mæðra- og feðralaun má finna hjá Tryggingastofnun ríkisins.